Um 60% nýskráðra bifreiða það sem af er þessu ári eru bílaleigubílar en á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa verið skráðar næstum jafn margar nýjar bifreiðar og allt árið 2013 samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Samgöngustofu og Bílgreinasambandinu. Allt árið 2013 voru samtals skráðir um 7.260 bílar en af þeim eru rúmir 3.000 bílaleigubílar. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa hins vegar verið nýskráðir rúmlega 7.100 bílar en af þeim eru tæplega 4.240 bílaleigubílar. Frá árinu 2011 hefur hlutfall bílaleigubíla af nýskráðum bifreiðum haldist nokkuð stöðugt í kringum 45% en svo virðist sem umfang þeirra hafi vaxið umtalsvert það sem af er þessu ári.

Að sögn Steingríms Birgissonarforstjóra Bílaleigu Akureyrar,stærstu bílaleigu landsins, eru innkaup á bílaleigubílum árstíðabundin. „Í rauninni má segja að aðalinnkaupin á bílaleigubílum séu í kringum apríl, maí og júní. Núna erum við komin með um 90% af innkaupunum sem við verðum með í ár,“ segir Steingrímur. „Bílasalan hrundi alveg í hruninu og megnið af sölunni eftir það hefur verið til bílaleiga en núna upp á síðkastið hefur hinn almenni markaður verið að taka við sér. Ég held að menn hafi verið að gera ráð fyrir um 4.000 til 4.500 bílaleigubílum á þessu ári og að heildarinnkaup væru í kringum 8.000 til 9.000, þannig að þetta yrði í kringum 50% bílaleigubílar í ár.“

Í takt við aukinn fjölda ferðamanna

Aukinn fjöldi ferðamanna til landsins hefur haft sitt að segja um stækkun bílaleigumarkaðarins. Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að bílaleigum hafi fjölgað um tæp 120% frá árinu 2008 en nú eru um 140 fyrirtæki skráð með rekstrarleyfi til að reka bílaleigu. Steingrímur segist ekki sjá fram á enn frekari innkaup hjá Bílaleigu Akureyrar á næstu árum, þrátt fyrir spár um aukinn fjölda ferðamanna. „Við höfum verið að kaupa sama magnið, um 1.000 bíla, síðustu þrjú ár. Sem betur fer hefur ferðamannatíminn verið að lengjast upp á síðkastið. Það er ekkert hægt að bæta endalaust meira bara á júlí og ágúst,“ segir Steingrímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .