Stærsti hluti landsmanna er sáttur við þá ákvörðun Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrv. þingmanns Samfylkingarinnar, að segja af sér þingmennsku fyrr á þessu ári.

Þetta kemur fram í könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið.

Sem kunnugt er sagði Steinunn Valdís af sér þingmennsku í vor eftir mikla umræðu vegna styrkja sem hún hafði fengið frá hinum ýmsu fyrirtækjum vegna þátttöku í prófkjörum. Alls eru 75% landsmanna sáttir við ákvörðun Steinunnar Valdísar á meðan 6% landsmanna eru ósáttir.

Athygli vekur að tæplega fimmtungur aðspurðra er hvorki sáttur né ósáttur við ákvörðun hennar.

Ef horft er til þeirra sem tóku afstöðu vekur athygli að tæplega 85% kjósenda Samfylkingarinnar eru sátt við ákvörðun Steinunnar Valdísar á meðan rúmlega 15% kjósenda Samfylkingarinnar eru ósátt.

Ef horft er til kjósenda hinna flokkanna sem eiga sæti á Alþingi eru 70-80% kjósenda þeirra sátt við ákvörðun Steinunnar Valdísar.

Styrkjamál ýmissa stjórnmálamanna, þ.á.m. Steinunnar Valdísar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, voru mikið í umræðunni sl. vor en bæði fengu þau háa styrki frá hinum ýmsu fyrirtækjum fyrir þátttöku í prófkjörum. Sú umræða leiddi meðal annars til afsagnar Steinunnar Valdísar.

Lítill munur er á milli kynjanna né eftir því hvaða afstöðu fólk tekur eftir aldri, búsetu, starfi eða menntun.