Í skoðanakönnun sem Talnakönnun gerði seinni hluta janúar töldu flestir að kreppan endi árið 2015. Milli 15 og 20 prósent nefndu sérhvert ár á tímabilinu 2012 til 2015.

Vísbending fjallar um könnunina í nýjasta tölublaði sýnu og veltir upp spurningunni hvenær endar kreppan? Í könnuninni var spurt: Hvaða ár heldur þú að Ísland komist út úr kreppunni? Úrtakið var 673 einstaklingar og 73% svöruðu spurningunni.

Vísbending
Vísbending
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stækka má myndina með því að smella á hana

Innan við 5% sögðu að kreppan væri yfirstaðin eða endaði á árinu 2011. Um 25% úrtaksins sögðu að hún endaði 2016 eða síðar og rétt tæplega 10% sögðu að hún endaði eftir 2020. Að meðaltali taldi hópurinn að kreppan endi um mitt ár 2015.

Í Vísbendingu er bent á að kreppan hafi nú þegar enst í rúmlega tvö ár. Samkvæmt öllum mælikvörðum fræðanna má segja að hér sé kreppa, hér hefur landsframleiðsla dregist saman átta ársfjórðunga í röð og samdráttur verið meiri en 10% eftir bankahrunið 2008.

Samkvæmt skilgreiðingu hagfræðinga er kreppunni nú að ljúka, þar sem hagvöxtur mælist jákvæður tvo ársfjórðunga í röð. Hann mældist jákvæður á 3. ársfjórðungi 2010 samkvæmt tölum Hagstofunnar og spá Seðlabankans gerir ráð fyrir nokkrum bata en skrykkjóttum næstu misserin.

Almenningur á annarri skoðun

„Hætt er við að almenningur sé ekki á sömu skoðun. Flestum líður eflaust lítið betur þó að hagkerfið liggi við botninn. Sennilega væru margir til í það að samþykkja að kreppunni væri lokið, þegar þeir stæðu aftur í sömu sporum og þegar hún byrjaði. Það er þó ólíklegt að það gerist á næstunni. Geysileg uppsveifla í húsnæðis- og hlutabréfaverði gerði það að verkum, að margir töldu að þeir væru miklu ríkari en þeir í raun voru. Það hefði i sjálfu sér ekki valdið teljandi skaða, nema af því að skuldir einstaklinga og fyrirtækja margfölduðust á nokkrum árum. Þetta tjón mun í flestum tilvikum aldrei verða bætt. Hins vegar kemur að því að menn byrji aftur á núlli, hvort sem það gerist í gegnum samninga eða gjaldþrot,“ segir í Vísbendingu.

Segir að verg landsframleiðsla verði að ná aftur fyrri styrk til þess að almenn sáttu verði um að þjóðin hafi hrist af sér kreppuna. Samkvæmt spá Seðlabankans til næstu þriggja ára verður landsframleiðslan orðin jafnmikil og hún var í upphafi árs 2008 um mitt árið 2014. Það þýði að kreppan hafi þá enst í sex og hálft ár, í þeim skilningi að það er sá tími sem það tekur þjóðina að komast aftur á sama stað og hún var fyrir hrun