Meirihluti landsmanna, eða 62%, telja að vel hefði tekist til við gerð kjarasamninga VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins, að því er fram kemur í könnun MMR. Könnunin var framkvæmd dagana 11. til 13. apríl 2019 og var heildarfjöldi svarenda 1003 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Í könnuninni var einnig spurt hverjum eigna mætti heiðurinn af því að vel hefði tekist til við gerð samninganna. Kom í ljós að sjö af hverjum tíu, eða 70%, töldu að stéttarfélögunum, þá VR og/eða Eflingu bæri að þakka, en tæpur helmingur nefndi stjórnvöld, eða 47% og um þriðjungur nefndi Samtök atvinnulífsins, eða 34%.

Jákvæðni gagnvart gerð nýrra kjarasamninga jókst með auknum aldri en 75% svarenda 68 ára og eldri og 70% þeirra á aldrinum 50-67 ára sögðu frekar eða mjög vel hafa tekist til, samanborið við 56% svarenda 30-49 ára og 50% þeirra í yngsta aldurshópnum, 1829 ára.

Stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna, eða 84%, reyndist líklegra en stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna, 49%, til að eigna stéttarfélögunum heiðurinn að nýju kjarasamningunum.

Þá reyndist stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna líklegra til að eigna stjórnvöldum, þá 64%, eða Samtökum atvinnulífsins, þá 41%, heiðurinn heldur en stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna, en 30% þeirra eignuðu stjórnvöldum heiðurinn en 27% Samtökum atvinnulífsins.