Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, nýtur mests trausts af forystumönnum stjórnmálaflokkanna á meðal almennings, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Katrín naut trausts 62,5% þeirra sem tóku afstöðu nú samanborið við 44,4% í síðustu könnun.

Á eftir Katrínu fylgdi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, en 56,2% þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust bera mikið traust til hans. Þá sögðu 51,5% bera mikið traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og 48,8% sögðust bera mikið traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra.

Styðja við bak flokksformanninum

Fram kemur í könnun MMR að líkt og í fyrri mælingum þá njóta flokksformenn almennt mikils trausts meðal stuðningsmanna eigin flokka. Formenn allra flokka nutu trausts yfir 80% stuðningsfólks eigin flokka. Aðeins í tilfelli þeirra sem studdu Samfylkinguna ríkti meira traust til einstaklings í sem tilheyrði öðrum flokki en til formanns flokksins. Þannig naut Katrín Jakobsdóttir traust s 93,4% þeirra sem studdu Samfylkinguna á meðan Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinna, naut trausts 76,6% þeirra sem studdu Samfylkinguna.

Frá síðustu mælingu (21.02.2013) varð mest aukning á trausti til Katrínar Jakobsdóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar. Í siðustu mælingu sögðust 44,4% bera mikið traust til Katrínar Jakobsdóttur, borið saman við 62,5% nú, 28,2% sögðust bera mikið traust til Sigmundar Davíðs borið saman við 48,8% nú og 14,6% sögðust bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar, borið saman við 33,8% nú.

Nánar um könnun MMR