Þó þeim fækki verulega sem telja Sjálfstæðisflokkinn bestan til þess fallinn að leiða innflytjendamálin er flokkurinn enn sá sem flestir treysta fyrir málaflokknum. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 25,6% Sjálfstæðisflokkinn bestan til þess fallinn að leiða málaflokkinn, borið saman við 32,0% í fyrir ári síðan og 41,4% fyrir tveimur árum síðan. 20,3% nefndu Samfylkinguna.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun MMR en fyrirtækið kannaði afstöðu fólks til þess hvaða stjórnmálaflokka það teldi best til þess fallna að leiða fjóra málaflokka sem stjórnvöld þurfa eða gætu þurft að fást við á næstu mánuðum. Þeir málaflokkar sem um ræðir eru innflytjendamál, samningar um aðild að Evrópusambandinu, endurskoðun á stjórnarskránni, og rannsókn á tildrögum bankahrunsins.

Flestir virðast treysta Pírötum til að gera upp gamla tíma. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 24,9% að Píratar væru best til þess fallnir að leiða rannsókn á tildrögum bankahrunsins. Til samanburðar töldu 8,8% Framsóknarflokkurinn bestan til þess fallinn.
Festir töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðild að Evrópusambandinu. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 39,0% töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðilda að Evrópusambandinu.

Í könnun MMR var spurt: Eftirfarandi eru nokkrir málaflokkar sem stjórnvöld þurfa eða gætu þurft að fást við á næstu mánuðum. Hvaða stjórnmálaflokkur, af eftirfarandi, telur þú að væri best til þess fallinn að leiða hvern málaflokk? Svarmöguleikar voru: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð, Píratar. Samtals tóku 58,3% afstöðu til spurningarinnar (að hluta til eða í heild).

Í úrtakinu voru einstaklingar 18 ára og eldri sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Í tilkynningu frá MMR segir að álitsgjafarnir séu valdir úr Þjóðskrá „þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma." Könnun var gerð dagana 9. til 14. janúar og var svarfjöldi 933 einstaklingar.