Samfylkingin með Dag B. Eggertsson fremstan í flokki fengi 31% atkvæða yrði gengið til borgarstjórnarkosninga nú, samkvæmt niðurstöðum Þjóðapúls Gallup. Sjálfstæðisflokkur fengi tæp 24%, Björt framtíð tæplega 21%, Píratar um 10%, VG rúm 8%, Framsóknarflokkur og flugvallarvinir um 4% og aðrir minna.

Ef þetta yrði niðurstaðan í kosningunum þá fengi Samfylkingin fimm borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð fjóra hvor og Píratar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð sinn hvorn borgarfulltrúann. Eina breytingin frá fyrri könnun er sú að Björt framtíð bætir við sig manni en Píratar missa mann.

Fram kemur í Þjóðarpúlsinum að litlar breytingar eru á fylgi flokkanna í Reykjavík frá síðustu könnun og breytist fylgi framboða á bilinu 0,1-0,9 prósentustig.

Rúmlega 8% kjósenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa.