Léttir réttir Hagkaups eftir Friðriku Hjördísi Geirsdóttur var vinsælasta bókin í síðustu viku, aðra vikuna í röð. Þar með er bókin orðin þriðja söluhæsta bókin það sem af er ári.

Bók Arnaldar Indriðasonar, Furðustrandir var í 2. sæti aðra vikuna í röð og í 3. sæti á topp 10 listanum yfir mest seldu bækurnar var bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig.

Í fjórða sæti var síðan Stóra Disney matreiðslubókin, sem jafnframt er mest selda bókin á þessu ári.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar þar sem í dag er birtur listi yfir söluhæstu bækurnar hér á landi í síðustu viku.

Þar kemur fram að 10 efstu bækurnar voru aðeins um 27% af heildarsölu en voru um 28% í síðustu viku. Mest var keypt af barna- og unglingabókum eða um 38% og í 2. sæti voru fræðibækur.

Metsölulistinn er birtur vikulega og byggir á upplýsingum frá  flestum bókaverslunum landsins og öðrum verslunum sem selja bækur (t.d. stórmörkuðum, bensínstöðvum o.fl.).

Stóra Disney matreiðslubókin er sem fyrr segir mest selda bókin það sem af er ári en á eftir henni kemur Furðustrandir eftir Arnald Indriðason.

Þá náði Léttir réttir Hagkaups þriðja sætinu yfir mest seldu bækur ársins í síðustu viku og sló þannig út Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Sjá listann í heild sinni.