Léttir réttir Hagkaups eftir Friðriku Hjördísi Geirsdóttur var vinsælasta bókin í síðustu viku og er þar með orðin fimmta mest selda bókin það sem af er ári.

Bók Arnaldar Indriðasonar, Furðustrandir var í 2. sæti í síðustu viku og í 3. sæti á topp 10 listanum var bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar þar sem í dag er birtur listi yfir söluhæstu bækurnar hér á landi í síðustu viku.

Þar kemur fram að 10 efstu bækurnar voru aðeins um 28% af heildarsölu vikunnar en voru um 44% í síðustu viku. Mest var keypt af barna- og unglingabókum eða um 37% og í 2. sæti voru fræðibækur.

Metsölulistinn er birtur vikulega og byggir á upplýsingum frá  flestum bókaverslunum landsins og öðrum verslunum sem selja bækur (t.d. stórmörkuðum, bensínstöðvum o.fl.).

Stóra Disney bókin er hins vegar mest selda bókin það sem af er ári en á eftir henni kemur Furðustrandir eftir Arnald Indriðason.

Þá er Rannsóknarskýrsla alþingis þriðja mest selda bókin. Léttir réttir Hagkaups er fjórða mest selda bókin það sem af er ári.

Sjá listann í heild sinni.