70,6% landsmanna er á móti því að lækka veiðigjald á útgerðina, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Stuðningsmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins eru mótfallnir því að lækka veiðigjaldið.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að 59% þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn nú eru andvíg áformum ríkisstjórnarinnar en 41% vill lækka gjöldin. Um 39,5% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru andvíg því að lækka gjöldin en 60,5% eru því fylgjandi. Til samanburðar eru á bilinu 86-90% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna andvíg lækkun gjalda og 74% stuðningsmanna Pírata.

Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um veiðigjöld var afgreitt úr atvinnuveganefnd Alþingis í gær og lagði meirihluti nefndarinnar til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Þingmenn Pírata boðuðu þessu tengt í gær að þegar málið verður lagt fyrir á þinginu þá ætli þeir að þæfa málið þar til forseti Íslands snýr aftur úr Þýskalandsferð sinni.