Þriðji hver kjósandi í Noregi vill að Jonas Gahr Støre, nýkjörinn formaður norska verkamannaflokksins, verði forsætisráðherra.

Um 22% vilja Ernu Solberg, formann Íhaldsflokksins og núverandi forsætisráðherra, í embætti. Ellefu prósent vilja fyrrverandi forsætisráðherra, Jens Stoltenberg, í embættið. Sá síðarnefndi mun síðar á árinu taka við starfi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins af Anders Fogh Rasmussen.

Vinsældir Ernu Solberg forsætisráðherra hafa dalað mikið að undanförnu. Í september í fyrra vildi 41% hafa hana sem forsætisráðherra, 32% í desember, 25% í mars og 22% núna.