81,3% þeirra sem sáu Áramótaskaupið síðasta og tók þátt í könnun MMR hafði ánægju af því. Þetta er töluvert meiri ánægja en hefur verið með skaupið síðustu ár, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar MMR. Yngra fólki líkaði skaupið betur en þeir sem eldri eru. Til samanburðar töldu aðeins 33,2% þeirra sem sáu skaupið árið 2012 það hafa verið gott. Af þeim sem tóku þátt í könnun MMR þá töldu 48,1% Áramótaskaupið árið 2012 hafa verið slakt.

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á viðhorfi fólks til skaupsins eftir aldri. Þeir sem tilheyrðu elstu aldurshópunum voru síður ánægð með Áramótaskaupið 2013 en þeir sem tilheyrðu yngri aldurshópum. Af þeim sem tóku afstöðu til könnunarinnar og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 84,4% Skaupið hafa verið gott, í aldurshópnum 30-49 ára sögðust 86,6% Skaupið hafa verið gott, í aldurshópnum 50-67 ára sögðu 74,7% Skaupið hafa verið gott og í elsta aldurshónum (68 ára og eldri) sögðu 67,5% Skaupið hafa verið gott.

Fleiri konum en körlum þótti Skaupið vera gott. Af þeim konum sem tóku þátt sögðu 85,8% Skaupið hafa verið gott, borið saman við 77,1% karla.

Könnun MMR var ger dagana 9. til 15. janúar 2014. Heildarfjöldi svarenda var 981 sem jafngildir 96,6% þeirra sem spurðir voru.