Afkoma af rekstri Fljótsdalshéraðs, þar sem Egilsstaðir eru stærsti byggðakjarninn, árið 2016 nam 256 milljónum króna samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins, en rekstrarafkoma A hluta var jákvæð um 178 milljónir króna.

Á árinu fór skuldahlutfall A hluta sveitarsjóðs niður fyrir 150% markið, en það stó í 145% í árslok 2016. Framlegðin, eða EBITDA, var jákvæð um 925 milljónir króna á árinu, eða 23% í hlutfalli af rekstrartekjum, en í A hluta nam hún 680 milljónum króna.

Veltufé frá rekstri A hluta nam 482 milljónum króna eða 14% af rekstrartekjum. Skuldir og skuldbindingar A og B hlutanna samanlagt námu 8.321 milljón króna, sem er lækkun um 460 milljónir króna frá fyrra ári.

Skuldaviðmið er því 181% en samkvæmt sveitarstjórnarlögum má það ekki vera hærra en 150%. Skuldir og skuldbindingar A hlutans námu 5.167 milljónum króna í árslok 2016 sem er lækkun um 292 milljónir króna frá árinu 2015, en skuldaviðmið þess hluta nam 139% um áramótin.