Lettneska flugfélagið airBaltic mun frá og með júní hefja flug hingað til lands frá lettnesku höfuðborginni Riga. Flogið verður til og frá Keflavík þrisvar í viku en þetta er þriðja árið í röð sem flugfélagið býður upp á ferðir milli borganna.

„Í upphaf þriðja sumarsins, sem við bjóðum upp á beint flug milli Riga OG Reykjavíkur, þá gleður það okkur að tilkynna að við höfum merkt aukningu í eftirspurn. Þökk sé auknum fjölda ferða og stærri vélum mun sætaframboð okkar aukast um 29 prósent þetta sumarið,“ segir Martin Gauss forstjóri airBaltic.

Í tilkynningu frá félaginu segir að frá Riga sé boðið upp á fjöldan allan af tengiflugum til annarra áfangastaða. Vinsælustu áfangastaðirnir hingað til hafi verið hinar höfuðborgir Eystrasaltsríkjanna, Tallinn og Vilnius, auk Moskvu, Tel Aviv og Kænugarðs.

Flogið verður með Airbus A220-300 vélum og verður lægsta miðaverðið 99 evrur eða rúmar 13 þúsund krónur íslenskar miðað við gengi dagsins í dag. Innifalið í því eru skattar og gjöld.

airBaltic er hlutafélag sem stofnað var 1995. Stærstu hluthafar þess eru lettneska ríkið, sem á um fjóra hluti af hverjum fimm, en Lars Thuesen á þá hluti sem eftir standa. Flugfloti félagsins samanstendur af 36 vélum. Sextán af áðurnefndum Airbus A220-300, átta Boeing 737 og tólf Bombardier Q400 fyrir styttri leggi.