Icelandair tilkynnti í dag Belfast — höfuðborg Norður-Írlands — sem nýjan áfangastað í leiðakerfi flugfélagsins. Belfast verður 44. áfangastaðurinn í leiðarkerfi Icelandair og hefst flugið þann 1. júní næstkomandi. Flogið verður allt árið, þrisvar sinnum í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Haft er eftir Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair, að Belfast sé ört vaxandi borg á heimsmælikvarða sem býður að hans mati upp á áhugaverða viðskiptakosti fyrir fyrirtæki ásamt iðandi mannlífi og afþreyingu fyrir farþega. „Við erum mjög ánægð með að geta boðið viðskiptavinum upp á þennan spennandi kost í leiðarkerfinu okkar,“ segir Birkir.

Flugfélag Íslands flýgur á Bombardier Q400 flugvélunum til Belfast. Flugvélarnar taka 72 farþega í samstarfi við Icelandair. „Flogið verður til og frá Keflavíkurflugvelli með sömu tengimöguleikum fyrir farþega yfir Norður-Atlantshafið og í öðru flugi í leiðarkerfi Icelandair á morgnana og síðdegis. Flogið verður til George Best City Airport sem er staðsettur aðeins 15 mínútum frá miðbæ borgarinnar og tekur flugið 2:55 klukkustundir,“ er einnig tekið fram.

Einnig er haft eftir Simon Hamilton, efnahagsmálaráðherra Norður-Írlands, í tilkynningunni að þessi nýja flugleið muni opna fyrir samgöngur Norður-Íra til Norður Ameríku.