„Gangurinn í þessu er búinn að vera mjög góður,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, og ber sig býsna vel þrátt fyrir undarlega tíma undanfarið.

„Leiðakerfið hrundi auðvitað, þannig að við þurftum að smíða nýtt – bara einn, tveir og þrír. Það hefur tekist vonum framar.“

Flogið er með fisk daglega til Boston í Bandaríkjunum og Liege í Belgíu, tíu ferðir á viku til Boston og tólf ferðir á viku til Evrópu.

„Áður en Covid kom þá var engin ferð til Bandaríkjanna með fraktara, við notuðum bara leiðakerfi Icelandair. Magnið á Boston er held ég meira en tvöfalt það sem var í fyrra, og það er svipað með Liege.“

Áhættan að skila sér

Þetta er veruleg aukning bæði til Boston og til Belgíu, sem hefur komið sér afar vel á síðustu vikum.

„Skýringin kann að vera sú að aðrir sem við erum að keppa við, þeir eru ekki að ná að koma sinni vöru á markað eins og við. Það var auðvitað planið okkar að gera allt sem við gátum til að tryggja það að íslenski fiskurinn kæmist á markað hvað sem á gengur. Við tókum auðvitað töluverða áhættu með því að gera þetta svona, en hún virðist vera að skila sér.“

Til viðbótar þessu er félagið farið að flytja fisk til Kína í beinu flugi, sem er alveg nýtt

„Við höfum verið að fljúga núna til Kína allt upp í tvær til þrjár ferðir á dag. Það er reyndar eitthvað að minnka en heldur samt áfram í einhverju flugi eitthvað áfram, erum við að vona.“

75 prósent af fyrra magni

Alls er Icelandair Cargo að flytja til Bandaríkjanna og Evrópu um 75 prósent af því magni sem flutt var í fyrra, og svo bætist Kína við.

„Fraktarinn er að taka svona 36 tonn í hverri ferð þannig að þetta er töluvert. Síðan nýtum við þetta litla framboð sem er í leiðakerfinu hjá Icelandair, en það er innan við þrjú prósent af því sem var. Það eru tvær ferðir í viku á London og tvær ferðir á Boston. Við nýtum það litla sem við getum nýtt þar.“

Til Kína er það laxinn sem verið er að flytja en til Bandaríkjanna og Evrópu mest ferska þorskhnakka.

„Við erum að fullnýta fraktarana, þeir eru að fljúga stanslaust alla daga vikunnar, á daginn til Bandaríkjanna og á nóttunni til Evrópu. Við höldum því á meðan þörf krefur. En síðan erum við að vonast að eftir 15. júní, þegar landið opnast, að við getum farið að byggja upp leiðakerfið eitthvað í áttina að því sem það var. Við erum auðvitað í nánu samstarfi við systurfélagið Icelandair um að kortleggja hvar hægt er að setja inn farþegavél þar sem fraktin og farþegaflugið vinnur vel saman. Það yrði þá til að opna fleiri markaði eða opna aftur markaði.“