Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, ræddi um áskoranir og tækifæri í flugrekstri í Viðskiptablaðinu sem kom út á dögunum. Hann segir nóg pláss á íslenskum flugmarkaði fyrir fleiri en eitt flugfélag.

„Það eru um 75 milljónir sem fara um þennan tengimarkað, á milli Bandaríkjanna og Evrópu, þannig að það er alveg sama hversu stórt Icelandair, Play eða nokkurt annað flugfélag yrði, félögin munu alltaf vera brotabrot af markaðnum. Í okkar huga er því alveg augljóst rými fyrir fleiri félög á markaðnum, hvort sem þau verða tvö, þrjú eða fleiri. Það má heldur ekki gleyma því að það eru tugir flugfélaga sem sjá sér hag í því að fljúga til Íslands," segir Birgir.

Fjöldi erlendra flugfélaga sem fljúga til Íslands fór ört vaxandi árin fyrir veirufaraldurinn, þrátt fyrir að erlend félög gætu flogið á milli álfanna án viðkomu hér á landi - og það með lægri tilkostnaði.

„Þetta snýst um að fara inn á litla markaði og tengja þá saman í gegnum „tengihub". Í stað þess að fljúga bara á milli New York og London eða álíka, felst tækifæri í því að tengja miklu minni markaði saman. Sá markaður getur verið ansi stór ef félög eru nógu sveigjanleg til þess að geta dansað með litlu mörkuðunum."

Auðvelt að enda eins og korktappi í sjó

Strategískt val á mörkuðum er ekki síst mikilvægt þegar keppt er við stærri flugfélög og félög sem búa við mun lægri launakostnað en þau íslensku.

„Við þurfum að vera klók í því að tengja saman markaði þar sem samkeppnin er minni. Við getum ekki keppt á flugleiðinni London - New York. Við þurfum að finna matarholurnar til hliðar, til dæmis Baltimore-London eða álíka, þar sem það er ekki jafn mikill þrýstingur á verð. Annars er auðvelt að enda eins og korktappi í sjó, með enga stjórn á verðlagningu."

Vegna þess hve stór öfl er við að etja á tekjuhliðinni, er þeim mun mikilvægara að huga að einingakostnaði þegar keppt er í verði.

„Til að tryggja lágan einingakostnað skiptir miklu máli að vera með rétt sætaframboð, á réttu áfangastaðina og með rétta flugáætlun. Það þarf að haga málum þannig að það sé flogið eftir eftirspurn markaðarins. Það getum við gert núna því við erum með mjög sveigjanlega og hagstæða leigusamninga um vélarnar. Leiguverð á mánuði er allt að 30% ódýrara en Wow air var með á sömu vélum og þau kjör höfum við læst inni til 10 ára eða svo. Vegna ástandsins greiðum við bara fyrir hverja flogna flugstund og það verður þannig í 12 mánuði eða hátt í það."

Launakostnaður íslenskra flugfélaga hefur verið bitbein í umræðunni en að mati Birgis er hann ekki aðalatriðið.

„Flugrekstur er svolítið frábrugðinn öðrum rekstri, þar sem víðast hvar annars staðar er launakostnaður mjög stór stærð í rekstrinum. Auðvitað skiptir gríðarlega miklu máli að halda launakostnaði niðri í flugrekstri líkt og öðrum rekstri, en það er samt ekki stærsti kostnaðarliðurinn í flugrekstrinum. Nútímaleg nálgun á reksturinn, skilvirkni í flugáætlun, sveigjanleikinn sem felst í smæðinni, hagstæðir leigusamningar og aðrir stórir kostnaðarliðir sem hægt er að læsa inni núna eru lykilatriði í að við getum haldið kostnaði niðri. Við þurfum ekki að níða skóinn af starfsmönnum okkar til þess, enda væri það óeðlilegt og léleg strategía til lengri tíma litið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .