Breska lággjaldaflugfélagið easyJet tilkynnti í gær að félagið hygðist hefja flug til Íslands næsta vor. Flogið verður þrisvar í viku á milli Keflavíkur og Lutonflugvallar í London og verður jómfrúarflugið þriðjudaginn 27. mars 2012.

Flugvélafloti easyJet telur meira en 200 flugvélar sem flytja árlega yfir 55 milljónir farþega á 580 flugleiðum. Notast verður við Airbus A319 vélar á flugleiðinni til Íslands. Frá Luton flýgur easyJet til 36 annarra áfangastaða í Evrópu og Miðausturlöndum.

Hugh Aitken, markaðsstjóri easyJet á Bretlandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að einungis sé stefnt að því að fljúga út október á næsta ári. Þá verði metið hvort flogið verði aftur sumarið 2013. Aitken segir að félagið miði við um 80% sætanýtingu og það takmark sé við gildi í fluginu til Íslands

Aukagjöldin skapa tekjur

Sala á flugmiðum hefst á vef easyJet í dag. Í tilkynningu frá félaginu í gær kom fram að viðskiptavinum félagsins gæfist kostur á að kaupa flugmiða á rúmar 6.000 krónur aðra leið og tæpar 11.000 krónur báðar leiðir. Hér er þó einungis um grunngjald að ræða en auk þess innheimtir easyJet, eins og mörg önnur lággjaldaflugfélög, aukagjald fyrir notkun kreditkorta, farangur, flýtiinnritun og svo frv.

Þannig kostar t.d. um 2.000 kr. fyrir hverja tösku sem innrituð er svo dæmi sé tekið.