Farþegaþotur í langflugi milli Evrópu og Ameríku fljúga enn beint yfir Heklu þrátt fyrir viðvaranir Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Páll skrifaði Samgöngustofu fyrir um ári síðan og varaði við því að farþegaþotur legðu leið sína yfir eldfjallið. Nú hefur verið búist við gosi í Heklu í nokkur ár, en eldfjallið gaus síðast árið 2000 og hafði þá gosið á um tíu ára fresti frá árinu 1970. Nú eru hins vegar fimmtán ár liðin frá síðasta gosi.

„Það fljúga þarna yfir 20-30 flugvélar á dag. Þær eru í hættu að lenda í stróknum þegar hann kemur. Hekla þarf ekki að eyða neinni orku í að bræða sig upp í gegnum jökul þannig að mökkurinn mun rísa strax með fullri orku og fara upp í tíu kílómetra hæð, upp að veðrahvörfum,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í fræðslumálum hjá Samgöngustofu, segir hins vegar við Morgunblaðið að ólíklegt sé að slys verði. „Það eru litl­ar lík­ur á því að Hekla gjósi og valdi slysi, af því að þetta tek­ur allt sinn tíma og Hekla er vel vöktuð. Þeir fljúga í 30.000 fet­um þannig að lík­urn­ar á að þetta valdi slysi eru eng­ar, eða litl­ar.“

Páll segir að það myndi nægja að færa flugleiðina um fimm kílómetra frá Heklu til að minnka áhættuna mikið. Það sé hins vegar grætilegt að engin viðbrögð virðist vera hjá yfirvöldum til þess að framkvæma það.