Bein flug til Mallorca, Alicante og Malaga eru vinsælustu flugleiðirnar hjá Primera Air frá Skandinavíu og nú hefur flugfélagið ákveðið að bjóða þá þjónustu frá Bretlandi. Primera Air kynnti nýlega beint flug til New York, Boston og Toronto frá Birmingham (BHX) og London (Stansted) og hefur nú bætt þremur orlofsáfangastöðum við, það Mallorca, Alicante og Malaga á Spáni.

Primera Air hefur að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu, þegar fest sig í sessi sem öflugt og þekkt fyrirtæki á sviði orlofsferða á Norðurlöndunum og nú hyggst flugfélagið opna ferðalöngum í Bretlandi nokkrar af vinsælustu leiðum fyrirtækisins.

Flogið verður daglega til Mallorca, Alicante og Malaga með Boeing 737-800 flugvélum fyrirtækisins, frá og með apríl og maí á næsta ári. Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi Primera Air segir mikla og stöðuga eftirspurn eftir millilandaflugi vera frá Birmingham og London til New York, Boston og Toronto.

„Þessar góðu undirtektir hafa orðið okkur hvatning til að bjóða fleiri flugleiðir til þeirra orlofsáfangastaða á Spáni og þjónustu og sem við höfum víðtæka reynslu af og þekkingu á,“ segir Andri Már. „Með flugferðunum okkar til Mallorca, Alicante og Malaga verður flugáætlun fjölda farþega til vinsælla áfangastaða enn betri en áður.“

Í öllum þessum ferðum er flogið með Boeing 737-800 vélum, með 189 sætum þar sem aðeins eitt farrými er í boði - Economy-farrými með fullri þjónustu. Farmiðar á lægsta verðinu, eða frá 35 GBP, eru þegar komnir í sölu á www.primeraair.co.uk.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um mun Primera Air hefja flug til New York og Boston frá nýjum evrópskum bækistöðvum sínum í Birmingham (BHX), London (Stansted, STN) og París (Charles de Gaulle, CDG), frá byrjun apríl 2018.

Á næstu tveimur árum hyggst Primera Air auka markaðsvægi sitt í bækistöðvum sínum, opna nýjar flugleiðir á milli landa og einnig opna nýjar bækistöðvar, þar sem flugfélagið hefur lagt inn pöntun fyrir 20 nýjum Boeing Max9-ER-vélum.

Um Primera

Primera Air er áætlunarflugfélag sem flýgur til yfir 70 flugvalla í Evrópu. Primera Air er með höfuðstöðvar í Danmörku og Lettlandi og er hluti af Primera Travel Group, sem samanstendur af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Eistlandi.