*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 7. júní 2021 17:59

Fljúga inn 30.000 ferðamönnum í júní

Icelandair segir mikinn áhuga á ferðum til Íslands og flugframboð hefur aukist til muna.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair á von á því að 30 þúsund ferðamenn fljúgi til Íslands með Icelandair í júní, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu samhliða birtingu flutningstalna fyrir maímánuð. Áhugi á Íslandsferðum meðal ferðamanna sé töluverður.

Fjöldi farþega í maí tvöfaldast milli ára en heimsfaraldrinn hafði mikil áhrif á flugumferð bæði árin. Fraktflutningar jukust um 24%. 

Fjöldi farþega í millilandaflugi var um 21.900 samanborið við um 3.200 í maí fyrra. Fjöldi farþega til Íslands var um 14.400 í maí, nær þrefalt fleiri en í apríl, en var aðeins um 1.500 í maí í fyrra. Fjöldi farþega frá Íslandi var um 5.700, sem eru um tvöfalt fleiri en í apríl síðastliðinn, en var aðeins um 1.600 í maí í fyrra. Þá hefur fjöldi farþega yfir hafið tekið lítillega við sér og var rúmlega 1.800 í maí.

Í innanlandsflugi fjölgaði farþegum úr um 5.700 í um 18.000 í maí á milli ára, sem er um 50% fleiri farþegar en í apríl síðastliðnum.

Icelandair hefur bætt nokkuð í sætaframboð sitt að undanförnu. Félagið hóf í maí flug til Tenerife, Berlínar og Munchen í Evrópu og til viðbótar við New York og Boston bættust Seattle, Chicago, Denver og Washington við í N-Ameríku. Í fyrri hluta júní mun félagið hefja reglulegt áætlunarflug til Zurich og Brussel í Evrópu og Newark flugvallar í N-Ameríku. Þá bætast við Helsinki, Hamborg, Genf, Manchester, Mílanó, og Billund í Evrópu í síðari hluta júní og Minneapolis í N-Ameríku.

Sætanýting í mánuðinum var 35,2% miðað við 29,4% fyrir ári. Félagið segir að lág sætanýting skýrist að hluta til af því að félagið nýti Boeing 767 á ákveðnum leiðum í stað minni véla í þeim tilgangi að auka fraktrými um borð.

„Það er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem orðið hefur bæði í millilandaflugi og innanlandsflugi á undanförnum vikum. Samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga hefur ferðavilji í heiminum aukist. Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað og öflugt markaðsstarf okkar erlendis hefur verið að skila sér. Við búumst við að yfir 30 þúsund ferðamenn komi til Íslands með Icelandair í júní. Þá er ánægjulegt hvað innanlandsflugið hefur gengið vel og er framboð okkar í júní svipað og á sama tíma á árinu 2019,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

Stikkorð: Icelandair