Icelandair Cargo mun í dag hefja fraktflug þrisvar sinnum í viku á milli Mílanó á Ítalíu og Newark flugvallar í New York í Bandaríkjunum, með viðkomu á Íslandi. Samhliða vöruflutningunum á milli Ítalíu og Bandaríkjanna verður flogið með sjávarafurðir frá Íslandi sem og aðrar vörur sem fluttar eru hingað til lands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Næstu tvo mánuði, eða fram til áramóta í það minnsta, verður flogið á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á Boeing 757 fraktvélum Icelandair Cargo.

Flugið á milli Ítalíu og Bandaríkjanna kemur í kjölfar samnings við þýska við flutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker. Sem kunnugt er flutti Icelandair Cargo lækningavörur frá Kína til Evrópu og Bandaríkjanna á vegum DB Schenker vorið 2020.

Ekki kemur til breytinga á öðrum áætlunarleiðum Icelandair Cargo vegna þessa. Áfram verður flogið til Boston í Bandaríkjunum og Liege í Belgíu, en flug þangað jókst töluvert eftir að Icelandair Cargo gerði samning við FedEx og TNT um flutninga á öllum þeirra vörum til og frá Íslandi í lok árs 2019. Þá hefur flutningur á frakt í farþegakerfi Icelandair aukist samhliða uppbyggingu félagsins á farþegaleiðakerfinu eftir að Covid faraldurinn skall á.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo:

„Þessi samningur kemur í kjölfar þeirra verkefna sem við höfum sinnt í samstarfi við DB Schenker á liðnu ári. Flugið til Ítalíu mun einnig auka þá möguleika sem bæði innflytjendur og útflytjendur hafa á vöruflutningum til og frá Suður Evrópu. Við höfum lagt kapp á að grípa þau tækifæri sem eru til staðar í síbreytilegum og vaxandi heimi fraktflutninga og náð að skapa Icelandair Cargo gott orðspor á alþjóðavísu.

Við sjáum tækifæri til sóknar á Norður-Atlantshafinu með því að flytja meira af frakt milli Evrópu og Ameríku og má segja að þetta verkefni sé afleiðing af því. Fraktflutningar jukust um 23% fyrstu níu mánuði ársins í ár miðað við sama tíma í fyrra, en mesta aukningin er einmitt á N-Atlantshafinu og við erum bjartsýn á áframhaldandi vöxt.“