*

þriðjudagur, 26. október 2021
Fólk 1. mars 2020 19:01

Fljúgandi kakkalakkar venjast seint

Elísa Dögg Björnsdóttir, nýr framkvæmdastjóri TVG Zimsen, hefur unnið lengi hjá félaginu, utan námsárs í Ástralíu.

Ritstjórn
Margt er í gangi hjá Elísu Dögg Björnsdóttur þessa dagana en auk þess að taka við framkvæmdastjórn félagsins sem hún hefur starfað lengi við utan námsárs í Ástralíu er hún ólétt að sínu þriðja barni og nýflutt í náttúrufegurð Hveragerðis.
Gígja Einars

„Ég er mjög þakklát að fá þetta tækifæri, og tek við góðu búi frá Birni Einarssyni. Eimskip-samstæðan er nú að fara í gegnum spennandi breytingar og mikla sókn,“ segir Elísa Dögg Björnsdóttir. Hún hefur tekið við af Birni Einarssyni sem framkvæmdastjóri TVG Zimsen, er hann tók að sér framkvæmdastjórn Sölu- og viðskiptastýringarsviðs Eimskipafélagsins.

„TVG Zimsen er flutningsmiðlun, að stórum hluta fyrir flug og lausavöru í minni sjósendingum, þá oft fyrir minni og meðalstór fyrirtæki meðan stærri inn- og útflutningur fer í gegnum móðurfélagið Eimskip. Hjá okkur verða nú þrjár deildir, það er flug- og sjódeild, sem snýst um sölu- og þjónustu. Síðan erum við með TVG Express utan um þjónustu við inn- og útflutning, dreifingu og hýsingu fyrir netverslanir, og loks er sérlausnasvið sem sinnir flutningi á búnaði fyrir kvikmyndagerð og tónleikahald, lyfjum og ferskum fiski með flugi.“

Elísa Dögg hefur starfað lengi hjá TVG Zimsen, fyrst samhliða skóla, en hún er lærður hagfræðingur. „Ég hef fengið að þróast og læra mikið í starfi, en hér er hár starfsaldur og mikil starfsánægja. Eftir útskrift frá HÍ fór ég í mastersnám í hagfræði til Ástralíu svo ég hætti hér þá í einungis í eitt ár, en kom svo í fullt starf til baka,“ segir Elísa Dögg.

„Það var skyndiákvörðun hjá mér að fara út, en margir Íslendingar voru á leiðinni í nám til Sydney á sama tíma. Ég átti reyndar fjölskyldu í Ástralíu, tvær systur mömmu bjuggu þar, reyndar hinum megin í landinu, í Perth, og tók eiginlega jafnlangan tíma að fljúga þar á milli eins og frá Íslandi til Bandaríkjanna. Mamma bjó þar reyndar líka um tíma áður en hún átti mig.

Þó að Sydney sé stórborg fannst mér menningin ekki ólík Íslandi, allir eru mjög indælir og fólkið alveg frábært svo ég upplifði ekki stórborgarbrag eins og í New York eða London. Náttúran þarna og loftslagið er auðvitað allt öðruvísi, en ég kynntist landinu ágætlega þegar ég nýtti sumarfríið, sem er öfugsnúið við hér eða yfir jólin, til að ferðast um. Maður venst reyndar seint fljúgandi kakkalökkum.“

Elísa Dögg er í sambúð með Jóni Grétari Ólafssyni arkitekt og saman eiga þau tvo stráka, tveggja og hálfs árs og einn sem verður fimm ára í næstu viku, auk þess sem hún er ólétt að þriðja barni þeirra. „Helsta áhugamálið þegar maður er með stóra og stækkandi fjölskyldu er að eyða tíma með henni, rækta vinasambönd og svo útivera. Við erum nýflutt í dásamlegt umhverfi í Hveragerði, þar sem eru æðislegar gönguleiðir og frábært fjölskylduvænt samfélag.“