Icelandair hefur ákveðið að auka við flug félagsins til Toronto í Kanada og næsta vetur verður flogið til borgarinnar fjórum sinnum í viku. Í tilkynningu frá félaginu segir jafnframt að ákveðið hafi verið að fljúga daglega til Parísar í vetur.

Icelandair hóf flug til Toronto árið 2008 og fram að þessu hefur borgin verið áfangastaður frá vori og fram á haust, en frá og með 8. mars næstkomandi er borgin heilsársstaður í leiðakerfi Icelandair. Hvað París varðar þá hefur hingað til verið flogið til og frá París fimm sinnum í viku þegar minnst er í janúar- og febrúarmánuðum, en fer nú í sjö sinnum í viku.

Toronto verður fimmta borgin í Norður-Ameríku sem sem flogið er til allt árið um kring, hinar eru Boston, New York, Seattle og Denver.