Floti flugfélagsins Play mun í upphafi telja tvær flugfélar. Þeim mun síðan fjölga um fjórar á vormánuðum næsta árs og eftir það um tvær á ári til ársins 2022. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu félagsins sem Kjarninn hefur undir höndum.

Til að byrja með verður flogið til sex áfangastaða. Þar eru á ferð höfuðborgir Danmerkur, Þýskalands, Bretlands og Frakklands auk Alicante og Tenerife. Samhliða fjölgun í flotanum er stefnt að því að fjölga áfangastöðum.

Samkvæmt kynningunni er þegar búið að landa afgreiðslutímum á þeim flugvöllum sem flogið verður til. Þá hefur einnig verið samið um fast verð á eldsneyti fyrsta hálfa ár félagsins í rekstri.

Félagið gerir ráð fyrir því að takast á loft um leið og flugrekstrarleyfi er komið í hús. Áður en það getur gerst þarf að ljúka fjármögnun þess. Þegar liggur 5,5 milljarða lánsfjármögnun frá breska sjóðnum Athene Capital. Til viðbótar er stefnt að því að sækja 1,7 milljarða frá innlendum aðilum.