Samtök iðnaðarins í Danmörku, Dansk Industri, óttast að fyrirtæki flýi úr landi vegna flókinna reglna um umhverfismál og hafa sent umhverfisráðherra þar í landi tillögur sem lúta að því að einfalda stjórnsýsluna.

Telja samtökin að jafnvel lítt vandasamir flutningar á vinnuskúr fyrir verkstjórn á iðnaðarsvæði þurfi að sæta svo flóknu og tafsömu reglugerðarumhverfi að framkvæmdaaðilinn gefist að lokum upp og hætti við að flytja skúrinn.

Samtökin hafa nú gefið út bækling með tuttugu tillögum um hvernig umhverfisráðherrann geti afnumið reglur sem þeir telja þrengja um of að atvinnulífinu.

Í bæklingnum er að finna tillögur um hvernig umhverfisyfirvöld geti náð eigin markmiðum um að draga úr skyldum athafnalífsins í umhverfismálum. Meðal annars leggja þau til að slegið verði af svokölluðum „grænum kröfum” þegar þær eru ekki lengur nauðsynlegar.

Hætta á fyrirtækjaflótta

„Það er ljóst að umfang stjórnunarlegra byrða hefur haft yfirhöndina, til skaða fyrir samkeppnisstöðuna,” segir Bjarne Palstrøm, yfirmaður umhverfismála DI á heimasíðu samtakanna.

Hann kveðst þeirrar hyggju að reglugerðarverk það sem sveitarfélögin flækja fyrirtækjum í geti ollið því að fyrirtækin leggi á flótta, ekki aðeins til annars sveitarfélags heldur til annarra landa.

Að mati samtakanna er helsta vandamál samfara stjórnunarlegum byrðum á umhverfismálin tengjast ekki umhverfinu sem slíku heldur vegna almenns laga – og regluverks, seinagangs í málsmeðferð og skort á rafrænni gagnavinnslu hjá yfirvöldum.

„Að sjálfsögðu viljum við taka tillit til umhverfisins, en málin eiga ekki að vera flóknari en þau þurfa að vera,” segir Bjarne.

„Umhverfisreglur mega ekki verða hindrun sem gerir ókleift að reka fyrirtæki í Danmörku.”