Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sér sýnist að áhrifin af haftafrumvarpi fjármálaráðherra á krónuna verði ekki mikil.

„Við eigum eftir að sjá frumvarpið sjálft og erum sérstaklega að horfa þar til hvernig heimildir verðbréfa- og fjárfestingarsjóða verða. Við höfum haldið úti öflugum erlendum hlutabréfasjóðum í gegnum öll þessi ár frá því að höftin voru innleidd, án þess að geta tekið við nýjum fjármunum. Við erum því mjög spennt að sjá að nú hyllir undir lok hafta. Við höfum jafnframt verið að reyna að meta hversu mikil eftirspurn er eftir því að flytja fjármagn til útlanda,“ segir hann.

„Okkar tilfinning er að Seðlabankinn sé að ofmeta útflæði gjaldeyris fyrsta kastið. Íslenskir fjárfestar hafa verið að fara sér hægt í að nýta sér nýjungar eftir hrun og ég held að þeir sem muni fara að fjárfesta erlendis muni gera það smáum, en öruggum skrefum. Það er líka skynsamlegt að gera það á þann hátt. Styrking krónunnar upp á síðkastið og flökt á erlendum mörkuðum kann að draga úr áhuga einhverra á að rjúka út með fjármuni. Erlend fjárfesting er hins vegar mikilvægur hluti í áhættudreifingu fjárfesta og því afar jákvætt að verið sé að opna fyrir hana,“ segir Flóki að lokum.