Flóki Halldórsson verður ráðinn forstöðumaður nýrrar skrifstofu skilavalds Seðlabanka Íslands að því er Fréttablaðið greinir frá.
Flóki starfaði sem framkvæmdastjóri sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis þangað til í fyrra en hann settist í stjórn Íslandsbanka í mars á þessu ári.

Staða forstöðumannsins var auglýst í september en 16 umsóknir bárust þar á meðal frá Páli Eiríkssyni lögmanni og fyrrverandi slitastjórnarmanni hjá Glitni, Einari Erni Gíslasyni sérfræðingi hjá Englandsbanka, Gunnari Viðar einum eiganda lögmannsstofunnar Lex, Matthíasi H. Johannessen fyrrverandi framkvæmdastjóra Actavis og Pétri Erni Sverrissyni lögmanni og ráðgjafa gamla Landsbankans.

Hlutverk skrifstofu Skilavalds er að vera stjórnvald við undirbúning og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, og á það að starfa aðskilið öðrum verkefnum Seðlabanka Íslands.