Viðhorf þeirra fjárfesta sem þegar hafa valið Ísland sem staðsetningarkost og annarra sem kynnt hafa sér landið en kosið að fara annað gefa mikilvægar vísbendingar um hvað þurfi að gera til að bæta umhverfi og umgjörð og þar með auka samkeppnishæfni Íslands. Fjárfestingarsvið Íslandsstofu hefur lagt áherslu á að fá skýringar frá þeim sem hætt hafa við fjárfestingar hér á landi og þá leitaði Fjárfestingarvaktin eftir ábendingum og viðhorfum þeirra sem fjárfest hafa á landinu.

Þeir sem hafa ílengst hér á landi með fjárfestingar sínar segja að sterkir innviðir, hæft vinnuafl og vinnuandi sem einkennist af metnaði sé meðal þess sem telja megi styrkleika Íslands. Þá sé regluverk á Íslandi að mestu í samræmi við það sem þekkist í Evrópu að því undanskildu að flókin og viðamikil löggjöf um tolla og vörugjöld hafi komið mjög á óvart. Fjárfestarnir voru almennt sáttir við hvernig tekið var á móti þeim hér á landi en gerðu athugasemdir við að viðmót hafi orðið annað eftir að fjárfestingin var orðin að veruleika og fyrirtækið komið til landsins. Í því sambandi var bent á að opinberar stofnanir og fyrirtæki sýni ekki mikið frumkvæði í samskiptum og oft þurfi að ganga á eftir skýrum svörum. Sú ábending kom fram að ganga verði frá öllum samningum með mjög ótvíræðum hætti til að tryggja að ekki komi upp vandamál síðar. Önnur umkvörtunarefni sneru m.a. að því að tíðar breytingar hafi valdið óvissu um skattamál en sýnu verra hafi verið þegar stjórnvöld stóðu ekki við gefin fyrirheit eða samkomulag. Þeir sem ákváðu að koma ekki til landsins gefa mismunandi ástæður fyrir því.

Veigamestu ástæður sem erlendir fjárfestar í orkuháðum iðnaði hafa gefið snúa að því að ekki hafi tekist að eyða nægilega óvissu um stóra áhættuþætti á borð við hvenær framleiðsla getur hafist. Þar hefur einkum tvennt verið hindrun. Í fyrsta lagi að fyrirtæki hafa ekki getað fengið staðfestingu á því hve langan tíma umhverfismatsferlið muni taka að hámarki. Í öðru lagi hafa orkufyrirtækin ekki getað skuldbundið sig til að afhenda tiltekið magn orku á ákveðnum tíma.

Ítarlega frétt  má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .