Ef við gefum okkur til gamans að stjórnarflokkarnir væru einstaklingar á Facebook og myndu þar skrá sig í samband yrði staða sambandsins að öllum líkindum „It’s complicated“ eða „Það er flókið“ á móðurmálinu.

Á alvarlegri nótum þá er óhætt að segja að það er ekki nokkur leið að segja til um hvað er nákvæmlega að fara að gerast í pólitíkinni. Það veit enginn og í mörgum tilvikum ekki einu sinni þeir sem sitja við stjórnvölinn þótt þeir ráði vissulega mestu þar um.

Titringur þingmanna og ráðherra Vinstri grænna (VG) undanfarnar vikur vegna aðildarferlis Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefur ekki farið framhjá nokkrum manni sem fylgist með stjórnmálum. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að spá stjórnarslitum vegna þessa máls. Þau eru þó óteljandi tilvikin þar sem þessari ríkisstjórn hefur verið spáð dauða en hún lifir þó enn þannig að rétt er að taka allar slíkar pælingar með fyrirvara.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins takast þó á tvenn sjónarmið innan raða Vinstri grænna. Annars vegar telja sumir að rétt sé að hamast á Samfylkingunni vegna ESB-málsins næstu vikurnar og marka þannig sterkari afstöðu gagnvart samstarfsflokknum í því máli, þó ekki væri nema fyrir liðsmenn VG. Það gæti falið í sér stjórnarslit strax í haust og kosningar í kjölfarið.

Á hinn bóginn eru þeir sem vilja halda fast í það markmið að núverandi ríkisstjórn verði fyrsta vinstri stjórnin til að sitja heilt kjörtímabil og senda þau skilaboð að menn klári þau verkefni sem þeir voru kjörnir til. Innan Samfylkingarinnar er farið að gæta verulegs pirrings gagnvart VG, nú síðast út af fyrrnefndu ESB-máli en það mál toppar þó aðeins pirringinn vegna afturhaldsamrar afstöðu VG — svo vitnað sé í orð heimildarmanna Viðskiptablaðsins — í garð erlendrar fjárfestingar og atvinnuuppbyggingar almennt. Innan Samfylkingarinnar er þó einnig ríkjandi það sjónarmið að klára kjörtímabilið.

Samkvæmt því sem Viðskiptablaðið kemst næst er enginn flokkur í raun tilbúinn í kosningar strax í haust. Ríkisstjórnarflokkarnir eru þó betur undirbúnir en stjórnarandstöðuflokkarnir, sem verður að sæta furðu, þannig að það má alls ekki útiloka það að forsvarsmenn stjórnarflokkanna meti það sem svo að jafnvel þótt það sé erfitt að fara í kosningabaráttu strax í haust sé það enn erfiðara fyrir stjórnarandstöðuna.

Nánar er fjallað um stjórnarsamstarfið og komandi kosningavetur, sem verður síðasti vetur þessa kjörtímabils, í úttekt í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.