Bóndi var í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir lok mánaðar dæmdur til að greiða Hörgársveit rúmlega milljón króna vegna kostnaðar sem af hlaust við að fanga tvo graðhesta og farga þeim.

Það var í ágúst 2017 sem folarnir, ómarkaðir og án örmerkja, gerðu sig heimakomna á jörð þar sem þeir voru óvelkomnir. Menn frá sveitarfélaginu komu á vettvang og fönguðu hestana tvo. Samband var haft við eiganda þeirra, honum gefinn kostur á að sækja þá og greiða kostnað sem hlaust af því að fanga þá. Þeim erindum var ekki sinnt.

Um mánuði síðar var farið fram á nauðungarsölu á hestunum og varð af henni í byrjun nóvember 2017. Sveitarfélagið keypti þau á 20 þúsund krónur og lét lóga þeim í sláturhúsi. Fyrir það fengust tæplega 18 þúsund krónur.

Sveitarfélagið krafðist þess að kostnaður þess við handsömun og uppihald folanna fengist endurgreitt. Það tók til að mynda fimm menn tvær klukkustundir að ná þeim og var tímagjaldið 4 þúsund krónur. Dýralæknir skoðaði þau og kostaði það 50 þúsund krónur og þá kostaði það 967 þúsund krónur að hýsa þau frá því að þau voru fönguð og þar til þau voru aflífuð. Samanlagt nam reikningurinn rúmlega milljón.

Stefndi í málinu krafðist sýknu á þeim grunni að hann hefði ekki átt hrossin og þau væru honum því óviðkomandi. Það hefði að vísu áður komið fyrir að hross hans hefðu sloppið og yfir á þessa jörð en í þessu tilviki hefði verið um önnur trippi að ræða.

Ekki var fallist á þetta fyrir dómi en samkvæmt vitnisburði eiganda jarðarinnar, þar sem hrossin mættu án boðskorts, og sveitarstjóra Hörgársveitar höfðu umræddir tveir hestar verið í stóðinu sem mætti árið áður. Stefnufjárhæð málsins var studd reikningum sem sveitarfélagið hafði þegar greitt og var því fallist á þá.

Samkvæmt dómsorði ber hin dæmda fjárhæð dráttarvexti frá miðjum febrúar í fyrra og þá var eigandi folanna dæmdur til að greiða 600 þúsund krónur í málskostnað.