*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 10. júní 2021 15:27

Flokkur fólksins eyðir mestu á Facebook

Síðustu 7 daga hefur Flokkur fólksins eytt meiru í auglýsingar á Facebook en flestir aðrir flokkar hafa gert á 30 dögum.

Ritstjórn
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Haraldur Guðjónsson

Flokkur fólksins hefur varið langtum meiri fjármunum í auglýsingar á Facebook síðastliðna 90 daga en aðrir flokkar, eða um 1,4 milljónum króna. Samfylkingin kemur þar næst á eftir með um 833 þúsund krónur og þá Sjálfstæðisflokkurinn með um 410 þúsund krónur. Þetta kemur fram í nýju mælaborði á vefsíðu Pírata, sem vaktar eyðslu flokkanna á Facebook í rauntíma.

Samkvæmt mælaborðinu hafa Píratar varið minnstum fjármunum á samfélagsmiðlinum undanfarna 90 daga, eða tæpum 80 þúsund krónum.

Undanfarna 30 daga hefur Samfylkingin varið mestu í auglýsingar á Facebook, um 550 þúsund krónum, og Flokkur fólksins um 450 þúsund krónum. Aðrir flokkar hafa eytt umtalsvert minna og er Viðreisn lægst flokka með ríflega 20 þúsund krónur.

Síðustu 7 daga hefur Flokkur fólksins eytt 257 þúsund krónum í auglýsingar á Facebook, sem er meira en nokkur annar flokkur, að Samfylkingunni undanskilinni, hefur gert síðastliðna 30 daga.