Grein Friðjóns R. Friðjónssonar, framkvæmdastjóra KOM ráðgjafar, um Sjálfstæðisflokkinn, hvar hann veltir því upp hvenær flokkurinn hætti að vera flokkur breytinga, hefur skapað talsverða umræðu á samfélagsmiðlum í dag.

Í greininni, sem birt var í Morgunblaðinu í dag, rifjar Friðjón upp hve mikið breytingaafl flokkurinn var á níunda og tíundaáratug síðustu aldar, fyrst undir forystu Þorsteins Pálssonar og síðar af enn meiri krafti undir forystu Davíðs Oddssonar.

„Ísland breytt­ist úr því að vera lokað og smátt í að verða opið og stór­huga. Við opnuðum markaði, seld­um aflóga rík­is­fyr­ir­tæki, leyfðum bjór sem bjó til nýja kaffi­húsa- og mat­ar­menn­ingu, kom­um á hluta­bréfa­markaði, af­nám­um gjald­eyr­is­höft, bjugg­um til sér­eign­ar­sparnað, sett­um upp­lýs­inga­lög, inn­leidd­um mik­il­væg­ar rétt­ar­bæt­ur í mál­efn­um sam­kyn­hneigðra og gerðum um­fangs­mestu breyt­ing­ar á stjórnarskrá sem gerðar hafa verið með nýj­um mann­rétt­indakafla," skrifar Friðjón.

Flokkurinn þróist og horfi fram á veginn

Síðustu 15 ár þykir Friðjóni hafa hallað undan fæti. Hann bendir þó á að erfitt sé að áfellast forystu flokksins fyrir að hafa verið upptekin af þeim stóru verkefnum sem efnahagshrunið leiddi af sér, en veltir því fyrir sér hvort „við hin" höfum ef til vill ekki verið nógu vakandi.

„Af­leiðing­in er sú að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur nú á sér það yf­ir­bragð að hann vilji ekki að ís­lenskt sam­fé­lag breyt­ist í takt við tím­ann eða um­heim­inn."

Segir hann það skipta sig máli að flokkurinn hans þróist og horfi fram á veginn.

„Ef Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ætl­ar að skil­greina sig sem flokk sem er á móti breyt­ing­um á efna­hags­líf­inu, sjáv­ar­út­vegn­um, land­búnaðar­kerf­inu, orku­mál­um, stjórn­ar­skránni og sam­fé­lag­inu sjálfu - þá mun hann daga uppi og verða að steini, eins og tröll í dagrenn­ingu."

Aflvaki breytinga undanfarin ár

Teitur Björn Einarsson, sem gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar, tekur að hluta til undir skrif Friðjóns í færslu á Facebook í dag.

Hann segir það rétt hjá Friðjóni að yfirbragð flokksins virðist á köflum benda til afturhalds frekar en framfara. Ekki ríki alltaf einhugur innan flokksins um mál og þó hluti hans styðji vissar breytingar þá hefur niðurstaðan stundum verið sú að styðja ekki við skynsamlegar breytingar „jafnvel þótt vilji standi til þess meðal margra flokksmanna."

Teitur Björn bendir þó á að síðasta áratuginn eða svo hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki haft þingstyrk sem þarf til að leiða í gegn ýmis mikilvæg framfaramál og bætir við að „því tafli þarf að snúa við."

Þá bendir hann á að flokkurinn hafi sannarlega verið aflvaki breytinga frá 2013 og telur upp mál á borð við afnám gjaldeyrishafta, lækkun skatta, afnám tolla, niðurgreiðslu opinberra skulda, breytingar á umgjörð nýsköpunar- og tækigeirans, ásamt fleiru. Ákall og brýning Friðjóns séu þó góð og eigi alltaf við.

Vandi sem flokkurinn hefur neitað að horfast í augu við

Fyrrverandi formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, tekur undir skrif Friðjóns í færslu á Facebook, og lýsir þessu sem vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur neitað að horfast í augu við.

„Kjarni málsins er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt skilgreint sig sem svona flokk með dyggum stuðningi málgagns útgerðarmanna. Fleiri og fleiri, sem áður studdu flokkinn, átta sig á því að framfarasinnað fólk verður að leita annað, ef það meinar eitthvað með vilja sínum til framfara," skrifar Benedikt.

Í umræðum á samfélagsmiðlum eru skiptar skoðanir um skrif Friðjóns, en einhverjir benda á að óskýrt sé hvaða breytingum Friðjón kallar eftir. Ragnar Önundarson, fyrrum bankastjóri og bankamaður, skrifar til að mynda í athugasemd á einum stað að Friðjón nefni ekki hvaða breytingar eigi að styðja.

„Vonandi er hann ekki að segja íhaldssömustu kjósendum landsins að þeir eigi að samþykkja „breytingar breytinganna vegna"," skrifar Ragnar.