Sameinað Rússland, flokkur Vladimír Pútin forseta Rússlands fær að öllum líkindum rétt rúmlega 60% atkvæða samkvæmt útgönguspám, í þingkosningum sem fóru fram í Rússlandi í dag. Yfir 100 milljón manns eru á kjörskrá.

Talið er að aðeins fjórir aðrir flokkar fái þingsæti. Kommúnistaflokkurinn er næst stærsti flokkur landsins og talið er að hann fái tæplega 12% atkvæða. Þá er einnig gert ráð fyrir að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og flokkurinn Réttlátt Rússland komi sínum mönnum að. Allir þessir flokkar hafa stutt ríkisstjórn Pútins hingað til og því stefnir í að enginn stjórnarandstöðuflokkur komi manni á þing.

Forsetakosningar verða haldnar í mars á næsta ári og samkvæmt núverandi stjórnarskrá má Putin ekki bjóða sig fram þar sem hans annað kjörtímabil rennur brátt á enda. Stjórnmálaskýrendur eiga ekki von á því að Putin láti breyta stjórnarskránni en engu að síður er talið að hann muni hafa áhrif með öðrum hætti eftir kosningar.

Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins er í eftirliti á vegum ÖSE en yfir 400 manns eru í eftirliti.

Rússland er stærsta ríki heims sé litið til landsvæðis og spannar 11 tímabelti. Búist er við að okatölur verði ekki ljósar fyrr en um miðjan dag á morgun.