Flökt á gengi krónunnar hefur minnkað verulega á árinu og er enn að minnka. Virðist sem Seðlabankinn hafi góða stjórn á genginu en það hefur sveiflast á þröngu bili síðan snemma í október.

Þetta segir í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Segir að svipaða sögu sé að segja af skuldatryggingarálagi á ríkissjóð sem hafi lækkað nær stöðugt það sem af er ári. Álagið stendur nú í um 273 stigum.

Vísbendingar um vaxandi titrú

„Viðskipti með skuldabréf ríkissjóðs í evrum sem eru á gjalddaga í desember á næsta ári hafa verið á ávöxtunarkröfu undir 6% síðan í ágúst og er það veruleg lækkun frá því sem hæst var á árinu. Seðlabankinn hefur reyndar verið kaupandi að þessum bréfum sem hefur stutt við kröfulækkunina.

Allt eru þetta vísbendingar um vaxandi tiltrú á því að ríkissjóður muni ráða við erfiða stöðu. Náist hagstæður samningur í Icesave málinu á næstu vikum ætti það að geta haft veruleg áhrif á þau atriði sem nefnd hafa verið,“ segir í vikulegum markaðsfréttum.

„Einnig gæti það flýtt því að ríkissjóður reyni fyrir sér á erlendum lánsfjármörkuðum, en hann mun ryðja brautina fyrir ýmsa innlenda aðila sem þurfa á erlendu lánsfjármagni að halda. “