Gengi krónunnar lækkaði í gær um ríflega 0,8% og stóð gengisvísitalan í lok dags í 112,5, dollarinn í 63 krónum og evran í tæplega 82 krónum. Gengisvísitalan hefur ekki staðið jafn há síðan um miðjan janúar síðastliðinn. Í morgun hefur krónan verið að styrkjast aftur og nemur hækkunin 0,3%. Talsvert flökt er því í gengi krónunnar þessa dagana. Ef miðað er við flökt til eins mánaðar þá hefur það ekki mælst jafn mikið síðan í upphafi árs segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Skiptar skoðanir meðal aðila á gjaldeyrismarkaði um þróun krónunnar á næstunni er sennilega helsta ástæða þessa aukna flökts. Gengi krónunnar er nú einungis um 0,8% hærra en það var í upphafi árs og hefur krónan lækkað um 5,4% frá því að hún náði sínu hæsta gildi á árinu sem var 21. mars síðastliðinn. Gengi krónunnar hefur því gengið í gegnum talsverða sveiflu það sem af er ári.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.