Ýmislegt bendir til þess að nokkurt misræmi sé í gæðum í þjónustu við ferðamenn, og mögulega má rekja hluta skýringar þess til stöðu gengis- og gjaldeyrismála síðustu misseri, segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann hélt í gær erindi á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Ferðaþjónustan er útflutningsgrein með þeim einkennum sem því fylgja, að tekjurnar eru að mestu í erlendri mynt og gjöld að mestu í íslenskri krónu. Því má segja að nokkur óvissa ríki ávallt um afkomu í greininni, vegna þess hve krónan hefur verið sterk og hversu mikið hún sveiflast,“ segir Finnur. „Hluti vandans felst t.a.m. í því að aðilar í ferðaþjónustu birta verðskrár fram í tímann í erlendri mynt og síðan ráða gengisbreytingar því hvað kemur í kassann í krónum. Þetta hefur að mínu mati kerfisbundin áhrif á atvinnugreinina, til hins verra. Þegar krónan styrkist hafa rekstraraðilar eðlilega tilhneigingu til aðhalds, sem getur komið niður á gæðum þjónustu og leitt til verri upplifunar viðskiptavinar,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .