Íslenska lyfjafyrirtækið Florealis hefur hafið hlutafjárfjármögnun í samstarfi við fjármögnunarfyrirtækið Funderbeam, sem er nokkurs konar markaðstorg fyrir fjárfestingar í sprota- og vaxtafyrirtækjum. Félagið hefur á undanförnum vikum staðið fyrir fjárfestakynningum víða um Evrópu í samstarfi við Funderbeam.

Florealis leggur áherslu á að brúa bilið á milli hefðbundinna lyfja og fæðubótaefna með þróun og markaðssetningu á jurtalyfjum. Á síðustu tveimur árum hefur félagið komið með níu vörur á markað sem allar hafa farið í gegnum skráningu hjá lyfjaeftirlitinu og byggja á klíniskum rannsóknum.

Meðal þeirra lyfja sem Florealis hefur sett á markað er Harpatinum, sem er eina viðurkennda jurtalyfið við lið- og gigtarverkjum, Sefitude sem er jurtalyf sem er notað til að bæta gæði svefns og til að draga úr kvíða, Glitinum, til að fyrirbyggir mígreni og Lyngonia sem er valkostur án sýklalyfja við þvagfærasýkingu. Hægt er að kaupa öll jurtalyfin frá Florealis í apótekum á Íslandi án lyfsseðils.

Vörur Florealis eru fáanlegar í um 600 apótekum á Íslandi og í Svíþjóð og hefur fjöldi sölustaða sjöfaldast frá því í maí 2019. Markmið fjármögnuninnar er að styðja við þennan mikla vöxt í Svíþjóð og sækja enn frekar á erlenda markaði með vörur Florealis.

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi Florealis segir fólk er í dag vera meðvitað um heilbrigði og því að viðhalda góðri heilsu. „Samhliða þeirri þróun hafa jurtalyf notið aukinna vinsælda og margir sem kjósa þau frekar en sýklalyf, ávanabindandi svefnlyf og önnur lyf með fleiri aukaverkanir,“ segir Kolbrún.

„Við leitum aftur til upprunans þar sem náttúran var notuð til lækninga en notum um leið nútíma þekkingu og tækni. Þar skiptir miklu máli mikil og góð reynsla af lyfjaþróun. Í dag eru einu viðurkenndu jurtalyfin sem fáanleg eru á Íslandi frá Florealis. Í kjölfar hlutafjárútboðsins stefnum við á enn frekari vöxt erlendis.“

Hlutafjárskráningin fer fram á heimasíðu Florealis og Funderbeam, en í dag eru stærstu eigendur Florealis Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og fjárfestahópurinn Einvala fjárfesting.