Flosi Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Tekur hann til starfa á næstu vikum að því er fram kemur á vef sambandsins .

Flosi býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu en hann er húsasmiður og viðskiptafræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá Íslandsstofu við fræðslu og ráðgjöf. Áður starfaði hann m.a. hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG um 10 ára skeið og sem húsasmiður hjá ýmsum aðilum.

Flosi býr einnig að fjölbreyttri reynslu af félagsmálum, m.a. setu í bæjarstjórn Kópavogs frá 1998 til 2010 auk setu í ýmsum nefndum og ráðum fyrir sveitarfélög og ráðuneyti. Þess utan hefur hann tekið þátt í margvíslegu öðru félagsstarfi.