Flugvélafloti Wow air samanstendur nú af 11 þotum og hefur Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, sagt að endurskipulagning flugfélagsins byggi á þeim fjölda flugvéla. En samkvæmt heimildum Túrista er hins vegar nú til skoðunar að fækka þotunum um tvær til þrjár í viðbót. Þessi breyting myndi hafa talsverð áhrif á farþegafjölda WOW air og áform um rúmlega 2 milljónir farþega í ár gætu því verið í hættu. Wow air flaug sem dæmi með 1,6 milljónir farþega árið 2016, en þá voru þoturnar 9 á fyrri helmingi ársins en bættust svo þrjár breiðþotur við á seinni helmingnum. Túristi greinir frá þessu.

Túristi hefur samkvæmt fréttinni ekki fengið svör frá Skúla Mogensen við fyrirspurn um þessa meintu fækkun í flugflota félagsins. En líkt komi fram í umfjöllun CNBC í gær, þá telur Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður í WOW air og samstarfsfélagi William Franke, stjórnanda Indigo Partners, að Franke muni gera kröfu um að stjórna flugleiðum og flota WOW air ef hann á endanum fjárfestir í félaginu. Frestur sem Indigo Partners hefur til að ganga frá samningi við Skúla rennur út í lok febrúar samkvæmt þeim breytingum sem skuldabréfaeigendur félagsins gáfu samþykki sitt fyrir nýverið.

Wow air gerði í hittifyrra samning um leigu á fjórum nýjum breiðþotum. Til stóð að fyrri tvær kæmu hingað til lands í þessum mánuði. Túristi hefur samkvæmt frétt sinni ekki fengið svör frá Wow air né eiganda flugvélanna hvort Wow air sé ennþá skuldbundið til að taka við þotunum. Leiga á einni slíkri vél gæti numið hátt í 100 milljónum á mánuði.