*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Innlent 26. febrúar 2021 10:07

Flotinn stækkaður fyrir 200 milljónir

Hreinsitækni hefur fest kaup á tveimur nýjum þjónustubifreiðum frá Krafti, umboðsaðila MAN á Íslandi.

Ritstjórn
Kristján Orri Jóhannsson

Hreinsitækni ehf. hefur fest kaup á tveimur þjónustubifreiðum af „fullkomnustu gerð“ sem uppfylla ströngustu umhverfisskilyrði, að því er segir í fréttatilkynningu. Um er að ræða fjárfestingu upp á tæpar 200 milljónir króna.

Annar bíllinn sem keyptur var safnar úrgangsolíu frá m.a. skipum og verkstæðum. Hann mun fyrst og fremst þjónusta verkstæði, skip og hafnir á stór – Reykjavíkursvæðinu. Bíllinn er ADR vottaður en auk þess hefur hann hlotið Euro 6 vottun sem er nýjasti umhverfisstaðall fyrir bifreiðar í þessum stærðarflokki og tekur bæði til útblásturs og hávaða.

Nýr holræsa- og dælubíll hefur einnig bæst í flota Hreinsitækni. Bíllinn uppfyllir alla helstu staðla, svo sem Euro 6 og er mjög afkastamikill. Þessi bíll er mikilvæg viðbót enda vaxandi verkefni á þessu sviði.

„Þessi nýju tæki eru í senn eðlileg endurnýjun á flota fyrirtækisins en um leið eykst afkastageta okkar. Miklu máli skiptir að fyrirtæki sem sinna umhverfisþjónustu kappkosti að minnka umhverfisfótspor sín, þessi kaup eru liður í þeirri viðleitni. Við leggjum mikla áherslu á að þau tæki sem við notum til að þjónusta okkar viðskiptavini, hvort sem er fyrirtæki eða sveitarfélög, séu traust og umhverfisvæn. Báðir þessir bílar eru komnir í vinnu og tryggja enn betri og öruggari þjónustu af okkar hálfu,“ er haft eftir Björgvin Jóni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Hreinsitækni, í tilkynningunni.

Báðar bifreiðarnar eru af gerðinni MAN og voru þeir keyptir af umboðsaðila MAN á Íslandi, en það er fyrirtækið Kraftur hf, sem flytur inn og þjónustar MAN. Gott samstarf var við Kraft um endanlega útfærslu bílanna svo að þeir hentuðu sem best þörfum Hreinsitækni.

Hreinsitækni er fyrirtæki sem vinnur að margvíslegri umhverfistengdri þjónustu. Félagið annast þrif á gatnakerfum og samgöngumannvirkjum sveitarfélaga og einkaaðila. Félagið þjónustar einnig holræsakerfi sveitarfélaga og einkaaðila, ásamt því að endurnýja fráveituæðar á umhverfisvænan og hagkvæman hátt. Þá safnar félagið úrgangsolíu og kemur til förgunar. Dótturfélag Hreinsitækni, Varnir og eftirlit ehf, er leiðandi aðili á sviði meindýravarna og eftirlits.

Stikkorð: Hreinsitækni