Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi í dag af hverju vandi sauðfjárbænda væri ekki á dagskrá þingfundarins á Alþingi í dag, í umræðum á þingi. Á þingfundinum verður meðal annars rætt um breytingar á útlendingalöggjöfinni eftir að fyrstu umræðu um uppreist æru ljúki. Breytingar á útlendingalögunum fælu meðal annars í sér breytingar sem myndu hjálpa tveimur flóttabörnum.

Þingmaðurinn velti því upp hvers vegna væri ekki ræddur vandi sauðfjárbænda á þinginu og sagði: „Ég tek ekki undir með þingflokksformanni VG að miklvægasta málið sé að koma börnum í skjól. Það er mikilvægt mál en það er jafn mikilvægt og að koma til móts við — og að bjarga búum og fjölskyldum sauðfjárbænda.“

Hann tók undir það að öll þau mál sem væru á dagskrá þingsins væru mikilvæg en sagði jafnframt: „Hvernig stendur á því að við erum ekki hér með þessa dagskrá eitt brýnasta málið sem þarf að leysa úr í dag?“