„Þetta eru, held ég að ég geti fullyrt, flottustu flugvélar sem hafa flogið undir íslensku flaggi. Þetta eru tvær splunkunýjar Airbus A321 vélar sem eru eins og sniðnar fyrir okkar leiðarkerfi til þess að nota milli Ameríku og Evrópu, með millilendingu á Íslandi,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow air í samtali við Viðskiptablaðið, en félagið tilkynnti í morgun að það hefði fest kaup á tveimur nýjum Airbus A321 flugvélum .

Flugvélarnar verða notaðar í Norður-Ameríkuflug WOW air sem hefst 27. mars til Boston en flugfélagið mun svo einnig hefja flug til Washington D.C. þann 8. maí. Flogið verður fimm sinnum í viku til Washington, D.C. og sex sinnum í viku til Boston. Listaverð á slíkum flugvélum frá Airbus eru um 15 milljarðar íslenskra króna hver flugvél.

Hingað til hefur Wow air leigt sínar flugvélar en þessar verða hins vegar í eigu flugfélagsins. „Þetta er kaupleiga og fjármagnað sem slíkt, en fram til þessa höfum við leigt vélarnar okkar. Þarna erum við því að eignast flugvélar í fyrsta sinn,“ segir Skúli.

Aðspurður hvort kaupin hafi verið fjármögnuð með tilkomu nýrra hluthafa í félagið segir Skúli svo ekki vera. „Kaupin eru fjármögnuð til margra ára í gegnum banka í Evrópu,“ segir Skúli að lokum.