*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Erlent 4. janúar 2020 18:04

Flúði sama dag og gæslu lauk

Nissan hafði ráðið öryggisfyrirtæki til að vakta fyrrverandi forstjóra félagsins. Henni lauk eftir hótun um lögsókn.

Jóhann Óli Eiðsson
Carlos Ghosn sést hér í fylgd lögreglu og lögmanns síns.
epa

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan, slapp úr stofufangelsi eftir að öryggisgæslu öryggisfyrirtækis, sem Nissan hafði ráðið til starfa, lauk. Sagt er frá á vef Reuters

Ghosn hafði verið í haldi japanskra stjórnvalda, fyrst í gæsluvarðhaldi en síðar í stofufangelsi gegn greiðslu tryggingar, í rúmt ár áður en hann slapp í árslok 2019. Með klækjabrögðum tókst honum að koma sér frá Japan til Líbanon þar sem hann dvelur nú. Í Japan biðu hans fjórar ákærur en hann var meðal annars grunaður um að hafa nýtt fjármuni Nissan í eigin þágu. 

Samkvæmt Reuters hafði Nissan ráðið öryggisfyrirtæki til að vakta Ghosn og fylgjast með því hvort hann ræddi við einhver vitni eða aðra sem mögulega gætu haft áhrif á málið. Þegar fulltrúar fyrirtækisins fengu veður af því að Ghosn hygðist stefna því fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs var vöktuninni hætt. Sama dag, þann 29. desember 2019, flúði Ghosn frá Japan. 

Forstjórinn fyrrverandi komst til Líbanon með millilendingu í Tyrklandi. Þarlend yfirvöld hafa handtekið fimm í tengslum við málið. Einn hinna handteknu, stjórnandi hjá hinu tyrkneska MNG Jet, segir að hann hafi tekið þátt í fléttunni óafvitandi. Það er hann vissi ekki hvern var verið að flytja. Hann hafi fengið fyrirmæli um hvað honum bæri að framkvæma. Ef það yrði ekki gert myndi hann og fjölskylda hans hljóta ill örlög. 

Enn er margt á huldu um það hvernig Ghosn tókst að koma sér frá Japan til Líbanon. Hvorki hann né fjölskylda hans hafa tjáð sig við fjölmiðla vegna málsins en þau hyggjast gera það þann 8. janúar næstkomandi.

Stikkorð: Nissan Carlos Ghosn