*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 2. desember 2017 16:19

Flug á alla leikstaðina komið í sölu

Beint HM flug Icelandair á leiki Íslands í Moskvu, Volgograd og Rostov komið í sölu, en þar munu leikir landsliðsins fara fram.

Ritstjórn
Fyrsti leikur landsliðsins fer fram í Moskvu, höfuðborg Rússlands

Sala er hafin á beinu flugi Icelandair á leiki Íslands í riðlakeppninni á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í sumar, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var landsliðið dregið í erfiðan riðil með Argentínu, Króatíu og Nígeríu.

Um er að ræða tveggja sólarhringa ferðir og innifalið er beint flug og hótel í tvær nætur, ferðir til og frá flugvelli og á leikvanginn og fararstjórn. Verðið er frá 175.000 kr. Í öllum tilvikum er flogið frá Íslandi daginn fyrir leik og komið til baka daginn eftir leik.

Ferðirnar þrjár eru eftirfarandi:

  • Flug til Moskvu á leik Íslands og Argentínu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 föstudaginn 15. júní og komið heim síðdegis sunnudaginn 17. júní.
  • Flug til Volgograd á leik Íslands og Nígeríu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 fimmtudaginn 21. júní og komið heim síðdegis laugardaginn 23. júní. 
  • Flug til Rostov á leik Íslands og Króatíu. Brottför er frá Keflavíkurflugvelli kl. 15:00 mánudaginn 25. júní og komið heim síðdegis miðvikudaginn 27. júní.