Reglulegt áætlunarflug Flugfélags íslands milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar hefst næstkomandi föstudag.

Um er að ræða fyrsta innanlandsflugið frá Keflavíkurflugvelli sem starfrækt er allt árið um kring að því er fram kemur á vef Túrista .

Skoða fleiri áfangastaði

„Við finnum fyrir miklum áhuga á þessu nýja flugi. Bæði hér heima en ekki síður hjá erlendum ferðaskrifstofum og öðrum seljendum," segir Guðmundur Óskarsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélagsins í samtali við Túrista.

„Ef vel gengur þá munum við skoða hvaða möguleika við höfum í flugi til annarra áfangastaða á Íslandi frá Keflavíkurflugvelli."

Þriðjungur Íslendingar

Guðmundur segir að um þriðjungur þeirra sem hafi bókað sæti séu Íslendingar, en flugið er einungis í boði fyrir þá sem eru að koma eða fara í utanlandsflug.

„Flugið er í boði fyrir farþega allra þeirra flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi en fyrirkomulagið er mismunandi. Farþegar Icelandair geta innritað farangur alla leið milli Akureyrar og áfangastaðar erlendis en farþegar annarra flugfélaga sækja farangur, innrita sig áfram til Akureyrar og fara svo í öryggisskimun," segir Guðmundur.

„Þetta gera þeir við farangursbeltin í komusalnum því vegna tollamála mega farþegar ekki fara úr töskusalnum. Á Akureyri innritum við hinsvegar alla farþega og farangur þeirra alla leið á áfangastað út í heimi og öryggisskimun fer þá fram á Akureyri.“

Dregur ekki úr flugi um Reykjavíkurflugvöll

Guðmundur segir Flugfélagið sjá mikla vaxtarmöguleika í beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli. „Flugfélag Íslands býður til að mynda upp á flug til fimm áfangastaða á Grænlandi," segir Guðmundur.

„Með auknum fjölda ferðamanna sem flýgur áfram frá Keflavík þá getum við fjölgað ferðum og eflt innanlandsflugið.“ Guðmundur segir aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli ekki hafa áhrif á að draga úr flugi um Reykjavíkurflugvöll.

„Þvert á móti. Við sjáum þetta sem tvo aðskilda hluti. Fyrir farþega í hefðbundnum innanlandsflugi þá er mun betra að fljúga í gegnum Reykjavíkurflugvöll. Ferðatími til og frá flugvelli er styttri og fyrirkomulag í flugstöð einfaldara og þægilegra," segir Guðmundur.