Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, segist ósáttur við þá ákvörðun flugumferðarstjóra að boða verkfall. Hann segir að þó að einhverjar tafir verði á flugi félagsins verði ekki um neina stórkostlega röskun að ræða og að ekki sé fyrirséð að hætta þurfi við ferðir.

„Það er talað um að hleypa nokkrum vélum í loftið þá daga sem verkfallið verður, svo það er ekki víst að öllu flugi seinki. Við erum að skoða hvernig þessar vélar verða valdar,” segir Matthías. „Einnig munum við reyna að seinka sem minnst flugi á þá áfangastaði þar sem við vitum að mikið er um tengiflug. Við vitum t.d. að í flugi til London eru margir sem þurfa að ná tengiflugi og því munum við gera okkar besta til að raska áætlunum þeirra sem minnst. Auk þess komum við til með að senda sms og tölvupóst á alla farþega okkar og við verðum með upplýsingar um seinkanir á heimasíðu okkar.”

Matthías er ekki ánægður með þá ákvörðun flugumferðarstjóra að boða verkfall. „Mér finnst fáránlegt að núna, þegar samdráttur er í þjóðfélaginu og heiminum öllum, á sama tíma og Icelandair er að segja upp hundruðum manna, sé hálaunastétt að fara út í aðgerðir sem draga úr eftirspurn og ímynd Íslands erlendis til að fá hærri laun sér til handa,” segir Matthías.