Upplýsingafulltrúi WOW air segir að meðan ástandið sé óbreytt við Bárðarbungu haldi WOW air flugáætlun sinni.

Eins og VB.is greindi frá segist Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair ekki búast við röskun á millilandaflugi vegna eldgoss. „Eins og staðan er núna gengur lífið sinn vanagang. Við vitum af þessu og fylgjumst vel með. Ef eitthvað gerist þá grípum við til ráðstafana,“ segir hann.

Svanhvít Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúi WOW air, tekur í svipaðan streng og Guðjón hjá Icelandair. Hún segir lífið ganga sinn vangagang en fylgst sé grannt með þróun mála á Vatnajökli. „Við höldum okkar striki. Þegar og ef eitthvað gerist þá metum við stöðuna,“ segir hún og bendir á að hópur starfsmanna félagsins hittist reglulega vegna þessa og undirbúi viðbragðsáætlun. „Á meðan ástandið er óbreytt þá höldum við flugáætlun okkar,“ segir Svanhvít.

Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað ýtarlega um Bárðarbungu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .