Flugbókanir Evrópubúa til Bandaríkjanna 3,4-földuðust í síðustu viku eftir að tilkynnt var að frá og með nóvember verði þeim hleypt inn í landið séu þeir bólusettir fyrir kórónuveirunni.

Bókanirnar eru enn um 30% færri en á sama tíma árið 2019, sem er svipað og bókanir Bandaríkjamanna fyrir sömu flugleið. Þær höfðu hinsvegar verið yfir 80% færri fyrir Evrópubúa fram að tilkynningunni, en hafa verið á bilinu 30-50% færri fyrir bandaríska flugfarþega síðustu mánuði.

Í tilkynningu Alþjóðasamtaka flugfélaga um málið segir að tölurnar sýni mikla uppsafnaða flugþörf neytenda, en Evrópubúar stóðu undir 43% flugferða yfir atlantshafið árið 2019.

Þrátt fyrir að fjórði ársfjórðungur sé alla jafna einna rólegastur á flugmarkaði er búist við að flugtölur muni fara vaxandi milli fjórðunga á Norður-atlantshafsmarkaði. Áætlað er að sætisframboð í áætlunarflugi verði komið í 75% af því sem það var 2019 í desember, samanborið við 45% nú í september.