Samkvæmt nýjum drögum að reglugerð um skotelda verður einungis heimilt að selja flugelda í þrjá sólarhinga, þar af einungis tvo fyrir áramót. Jafnframt verði heimilaður skotttími flugelda minnkaður úr því að vera á sama tíma og sölutíminn í þrjá eftirmiðdaga.

Reglugerðarbreytingin hefur verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda en tillögurnar byggja á vinnu starfshóps dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, en sá síðastnefndi skipaði starfshópinn í lok árs 2018.

Verði af breytingunni mun ekki lengur vera heimilt að selja flugelda frá 28. desember ár hvert til og með 6. janúar, eða í tíu daga heldur einungis þrjá í heildina, það er einungis 30. og 31. desember og svo á þrettándanum, 6. janúar. Einnig verði einungis heimilt að skjóta flugeldunum á loft frá klukkan 16 dagana þrjá, til og með 2 að nóttu á nýársnótt og 22:00 að kvöldi hina dagana.

Brot á reglum varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum en reglugerðin gildir ekki um svokallaða sérbúna skotelda, það er neyðarblys, flugelda í geimiðnaði eða skotelda hernaðarlegs eðlis. Reglugerðin gildir þó ef neyðarblysin séu ekki notuð í neyðartilgangi.

Fulltrúar vinstriflokkanna vildu ganga lengra í bönnum

Starfshópurinn átti að skoða hvort þörf væri á að grípa til aðgerða og takmarka með einhverjum hætti notkun flugelda hér á landi, með tilliti til atriða eins og fjármögnunar björgunarsveita, áhrifum flugelda á lýðheilsu manna og heilsu dýra, sem og loftgæði og mengun.

Fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem skipuð voru af Svandísi Svavarsdóttur ráðherra Vinstri grænna og Guðmundi Inga Guðbrandssonar, utanþingsráðherra sem Vinstri grænir skipuðu, vildu þó ganga lengra.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að 60 ára gömul hefð sé fyrir því að skjóta upp flugeldum hér á landi í kringum áramót og lok jóla á þrettándanum, sem og að um sé að ræða mikilvæga fjáröflunaraðferð fyrir björgunarsveitir og annað félagsstarf.

Sölu hætt árið 2030 eða takmörkuð við svæði

Lögðu þeir til að allri almennri notkun skotelda í svokölluðum 3. flokki yrði hætt árið 2030, eða að sveitarfélög afmarki svæði þar sem heimilt sé að skjóta upp flugeldum. Ástæðan er sögð að óumdeilt sé að svifryksmengun af völdum skotelda hafi áhrif á heilsufar almennings, þá sérstaklega viðkvæmra hópa.

Fulltrúar dómsmálaráðherra, sem þá var Sigríður Andersen, lögðu til ítarlegri mælingar á mengun með fjölgun mælistöðva og greiningu á uppruna mengunarinnar. Jafnframt að innflutningur á rakettum á priki verði bannaður þó áfram megi flytja inn tertur, auk þess að innflytjendum verði gert að taka þátt í rannsóknum og vöruþróun á skoteldum.

Í starfshópnum sátu Sigurbjörg Sæmundsdóttir, formaður, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Jón Gunnarsson, alþingismaður, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, tilnefndur af velferðarráðuneyti. Auk þess mættu tveir starfsmenn dómsmálaráðuneytisins á fundi fyrir Jón í forföllum hans.